Hlustað af kvalarlosta

Getur verið að ég sé haldinn kvalarlosta?

Ein af ástæðunum fyrir því að ég er að velta þessu fyrir mér er sú að ég hlusta á Útvarp Sögu í bílnum. Ég fæ tvennt út úr þeirri hlustun, pirringsköst og nöldurþörf. Nöldurþörfin birgist síðan inni vegna þess að ég hlusta aðeins á Útvarp Sögu þegar ég er einn í bílnum. Ég kvelst síðan langt fram á kvöld eftir pínlega hlustun.

Þetta náði hámarki í fyrradag. Þá var ég að keyra heim og lenti næstum því út í skurði vegna umræðna í útvarpinu. Þáttur Arnþrúðar Karlsdóttur var í loftinu og kona á línunni (mögulega þessi fræga húsmóðir í vesturbænum sem svo oft skrifar Velvakanda bréf). Útafaksturinn átti sér næstum því stað þegar þessi kona sagði að það væri mótsögn í kerfinu að innflytjendur þyrftu ekki að fara í læknisrannsókn við komuna til landsins á sama tíma og dýr þurfi að fara í einangrun út í Hrísey.

Við það eitt að heyra einhvern líkja innflutningi manneskja milli landa við flutning á gæludýrum varð mér svo um að mér sortnaði fyrir augum og svo þegar Arnþrúður samsinnti innhringjandanum og bætti við að ekki mætti heldur flytja hingað inn ósoðna skinku í ferðatösku þá missti ég mig algjörlega og æpti á útvarpi "ERUÐ ÞIÐ HÁLFVITAR!!!!"

Ég komst nú heim heill á húfi en ég hef tekið þá ákvörðun að næst þegar ég hlusta á Útvarp sögu þá verður það í bólstruðu herbergi svo ég geti fengið þá útrás sem ég þarf án þess að meiða mig og/eða aðra.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband